Tilgangur þessa verkefnis er tvíþættur: að afla gagna til vísindalegrar rannsóknar á áhrifum kosningakerfa á úrslit forsetakosninga og þætti sem þeim tengjast, og að veita almenningi upplýsingar um mismunandi kosningakerfi og notkun þeirra í þremur evrópskum löndum sem kjósa sér forseta (Frakklandi, Írlandi og Íslandi).
Rannsókn:
Vísindalega rannsóknin leitast við að skýra áhrif kosningakerfa á úrslit forsetakosninga og viðhorf kjósenda gagnvart þeim. Hafa kosningareglur áhrif á niðurstöður kosninga? Er eitt kosningakerfanna betra en önnur miðað við tiltekin viðmið? Til að svara þessum spurningum er nauðsynlegt að skilja hvernig kjósendur greiða atkvæði í mismunandi kosningakerfum og einfaldasta leiðin til þess að komast að því er að spyrja þá sjálfa hvernig þeir myndu kjósa. Auk þessa höfum við áhuga á að skilja hvernig ýmsir þættir tengjast því hvaða frambjóðanda eða frambjóðendur íslenskir kjósendur myndu kjósa í þessum tilteknu forsetakosningum.
Því biðjum við þig að taka þátt í þessari könnun á áhrifum kosningakerfa á niðurstöður úrslita í forsetakosningunum. Þátttakendur kjósa fjórum sinnum, einu sinni fyrir hvert kosningakerfi. Við biðjum þá að spyrja sig: “Hvernig myndi ég kjósa í komandi forsetakosningunum á Íslandi ef viðkomandi kosningakerfi væri notað?”
Trúnaður:
Gögnin verða einungis nýtt til vísindalegra rannsókna. Þau verða ekki notuð í viðskiptalegum eða pólitískum tilgangi. Gögnin verða vistuð í gagnagrunni rannsakanda í Bandaríkjunum án nokkurra auðkenna sem gefa færi á að rekja svörin til þátttakenda. Svarendur hafa val um það hvort einstaka spurningum er svarað eða ekki. Hvorki IP-addressur tölvu, stillingar vafra eða nokkrar aðrar upplýsingar sem gera það mögulegt að rekja svör til einstaklinga eru vistaðar.
Ef þú hefur einhverjar spurningar um rannsóknina eða vefsíðuna getur þú beint spurningum til:
Viktors Orra Valgarðssonar (V.O.Valgardsson@soton.ac.uk), nýdoktors í stjórnmálafræði (Leverhulme Early Career Fellow), University of Southampton
Indriða H. Indriðasonar (indridi.indridason@ucr.edu), Professor, stjórnmálafræðideild University of California, Riverside.
Upplýsingar:
Vefsíðan útskýrir helstu einkenni kosningakerfa í þremur löndum (Frakklandi, Írlandi og Íslandi) sem kjósa forseta beinum kosningu en eftir mismunandi kosningareglum. Stuttar upplýsingar um kosningakerfin fylgja hér fyrir neðan, en frekari upplýsingar má nálgast undir síðunum “Kosningakerfi” og “Kosningar í ólíkum löndum” hér að ofan.
Forseti Íslands er kjörinn með einfaldri meirihlutakosningu (e. simple majority), þar sem hver kjósandi kýs einfaldlega einn frambjóðanda og sá sem hlýtur flest atkvæði er kjörinn forseti – jafnvel þó að hlutfall atkvæða hans sé undir 50%.
Líkt og á Íslandi greiða kjósendur í Frakklandi einum frambjóðanda í forsetakosningum atkvæði. Ef enginn frambjóðandi hlýtur meira en helming atkvæða er haldin önnur umferð, þar sem þeir tveir frambjóðendur sem flest atkvæði hlutu í fyrri umferðinni há einvígi og kjósendur kjósa á milli þeirra. Þetta kerfi er kallað meirihlutakosning í tveimur umferðum (e. two-round system, majority run-off).
Á Írlandi geta kjósendur greitt mörgum frambjóðendum atkvæði með því að gefa þeim raðnúmer eftir því hverja þeirra þeir styðja helst; þ.e. sá sem þeir styðja helst er settur í 1. sæti, sá sem þeir styðja næsthelst er settur í 2. sæti o.s.frv. Úrslit kosninganna taka síðan mið af þessari valröðun kjósenda. Hafi enginn einn frambjóðandi hlotið atkvæði meirihluta kjósenda í 1. sæti er sá frambjóðandi sem hefur fæst atkvæði í 1. sæti útilokaður úr talningunni og atkvæðum hans er úthlutað til þeirra frambjóðanda sem næstir komu í valröðun þeirra kjósenda sem kusu frambjóðandan sem var útilokaður í 1. sæti. Þetta ferli útilokunar er endurtekið uns einn frambjóðandi hefur hlotið meirihluta atkvæða. Þetta kerfi er því dæmi um raðval (þar sem kjósendur geta forgangsraðað frambjóðendum) og kallast varaatkvæðiskerfið (e. Alternative Vote). Þetta kerfi er afbrigði af kosningakerfinu sem var notað í Stjórnlagaþingskosningunum á Íslandi; það kerfi kallast “eitt færanlegt atkvæði” (e. Single Transferable Vote) og er afbrigði af varaatkvæðiskerfi sem notað er þegar verið er að kjósa í fleira en eitt embætti í einu (til dæmis þingsæti).
Auk þessara kosningakerfa eru margir aðrir möguleikar fyrir hendi sem ekki hafa verið notaðir í forsetakosningum en hafa vakið athygli fræðimanna sem telja þau hafa jákvæða eiginleika og stundum verið notuð við aðrar kringumstæður en í opinberum kosningum. Við kynnum til sögunnar tvö kosningakerfi sem gefa kjósendum aukið færi á að veita nánari upplýsingur um hversu vel (eða illa) þeim líkar við frambjóðendur. Fyrra kerfið kallast Borda talning (e. Borda count) og er einnig raðvalskerfi, þ.e. það gengur út á að kjósendur raða frambjóðendum í forgangsröð. Í þessu kerfi, ólíkt varaatkvæðiskerfinu, fá allir frambjóðendurnir á kjörseðlinum stig. Eitt algengt afbrigði er að frambjóðandinn sem raðað er neðst fái ekkert stig, sá sem raðað er næstneðst fái eitt stig, sá sem raðað er fyrir ofan viðkomandi fái tvö stig og svo koll af kolli. Stig hvers frambjóðanda eru síðan lögð saman og sá sem er með flest stig er sigurvegari kosninganna.
Síðara kerfið kallast samþykktarkosning (krossakerfið, e. approval voting) og gengur út að kjósendur velja eins marga frambjóðendur og þeir vilja án þess að raða þeim á nokkurn hátt. Með samþykktarkosningu gefur kjósandinn til kynna hvaða frambjóðanda hann styður eða treystir. Sigurvegari kosninganna er sá frambjóðandi sem fær flest samþykktaratkvæði, og nýtur þannig stuðnings eða trausts flestra kjósenda. Samþykktarkosning hefur verið notuð í ýmsum félagasamtökum en ekkert land hefur notað þær við forseta- eða þingkosningar.
Lesendum vefsíðunnar er boðið að skoða kosningar til embættis forseta Íslands með tilliti til notkunar þessarra fimm kosningakerfa og nánari útskýringar á þeim er að finna hér á vefsvæðinu.
Athugið að í könnuninni látum við kjósendur ekki kjósa sérstaklega eftir franska tveggja umferða kerfinu, þar sem við getum ekki vitað hvaða tveir frambjóðendur yrðu eftir í annarri umferð í þessum kosningum og það væri til of mikils mælst að biðja svarendur að velja á milli allra 66 mögulegra para frambjóðenda. Hins vegar munum við notast við forgangskosningu svarenda í varaatkvæðiskerfinu til að álykta um hvernig svarendur hefðu kosið undir ólíkum kringumstæðum í franska kerfinu.