Varaatkvæði er kosningakerfi þar sem hver kjósandi kýs einn frambjóðanda sem hlýtur atkvæði hans – og setur hann í fyrsta sæti. Ef kjósandi vill kjósa aðra til vara getur hann gert það og númerað val sitt eftir eigin forgangsröðun á frambjóðendum. Frambjóðendur í varasæti hljóta því aðeins atkvæði kjósanda að sá/þeir sem eru ofar í vali kjósandans hafi fallið út áður í einhverri umferð talningarinnar. Líkurnar á því eru eðlilega mismiklar. Við flestar aðstæður tekur lítill hluti varaatkvæða gildi.
Framkvæmd kosninga:
Kjósendur kjósa einn frambjóðanda í fyrsta sæti. Öðrum frambjóðendum geta þeir raðað til vara í aftari sæti í þeirri röð sem þeir kjósa. Til að finna sigurvegara kosninganna þarf venjulega að telja atkvæðin í nokkrum umferðum eða skrefum eins og skýrt er hér að neðan.
Talning atkvæða
- Fyrsta skref: Í fyrsta skrefinu eru atkvæði hvers frambjóðanda í fyrsta sæti talin. Ef einhver frambjóðandanna hlýtur hreinan meirihluta atkvæða telst hann hafa náð kjöri.
- Annað skref: Ef engin frambjóðandi vinnur meirihluta atkvæða í fyrsta skrefinu, er sá frambjóðandi sem fær fæst atkvæði í fyrsta sæti útilokaður.
- Þriðja skref: Atkvæði þess frambjóðenda sem útilokaður hefur verið detta dauð niður. Þau atkvæði sem hann fékk koma því ekki meira við sögu talningarinnar, nema kjósandi hafi kosið annan frambjóðanda til vara. Í því tilviki telst atkvæði hvers kjósanda greitt þeim sem er í öðru sæti á atkvæðaseðli hans. Ef einhver eftirstandandi frambjóðanda hefur hreinan meirihluta atkvæða eftir talningu þessa varaatkvæða ásamt atkvæðum úr fyrsta skrefi telst hann kjörinn.
- Fjórða skref: Annað og þriðja skref eru endurtekin þar til einn frambjóðandi hefur fengið hreinan meirihluta atkvæða og varaatkvæða.
Dæmi:
Segjum að það séu fimm kjósendur og þrír frambjóðendur sem við köllum A, B og C.
Fyrsta sæti Annað sæti Þriðja sæti Kjósandi 1 A B C Kjósandi 2 A B C Kjósandi 3 B A C Kjósandi 4 B A C Kjósandi 5 C A B
- Skref 1: Við teljum atkvæði kjósenda í fyrsta sæti. A fær 2 atkvæði, B fær tvö atkvæði og C fær eitt atkvæði.
- Skref 2: Enginn frambjóðandi hefur meirihluta atkvæða. Frambjóðandi C hefur fæst atkvæði og er er útilokaður.
- Skref 3: Þar sem val á kjósanda 5 á C í fyrsta sæti dettur dautt niður tekur val hans í annað sæti gildi, sem er A.
- Skref 4: Atkvæði kjósanda 5 færist því yfir á frambjóðanda A, sem nú hefur 3 atkvæði. Frambjóðandi B er áfram með tvö atkvæði.
- Skref 5: Frambjóðandi A hefur hreinan meirihluta atkvæða og telst kjörinn.
Kostir og gallar:
Talning og dreifing atkvæða er flókið ferli og erfitt getur verið að sjá fyrir hver raunverulega hlýtur stuðning kjósandans. Sigurvegari kosninganna þarf að hafa fleiri atkvæði og varaatkvæði á bak við sig en aðrir frambjóðendur, sem ekki voru þegar útilokaðir þegar kom að síðustu umferðinni.
Mögulegt er að frambjóðandi sem útilokast í talningarferlinu hafi stuðning stærri hluta kjósenda í fyrsta sætið en sigurvegari kosninganna. Frambjóðandi getur einnig fræðilega haft t.d. atkvæði 100% kjósenda í 2. sætið en engin atkvæði í 1. sætið og því verið útilokaður strax, þrátt fyrir að njóta í einhverjum skilningi mun meiri hylli en aðrir frambjóðendur.
Varaatkvæðið er “forgangsröðunarkerfi” þar sem kjósendur geta valið til vara fleiri en þann sem þeir kjósa með því að raða þeim sem fá varaatkvæðið í forgangsröð. Svona kerfi eru notuð í ólíkum útfærslum í Írlandi, Ástralíu og Nýja Sjálandi.