Samþykktarkosning

Samþykktarkosning (e. approval voting) er einfalt kosningakerfi sem hefur ekki verið mikið notað en hefur hlotið nokkra athygli fræðimanna sem telja það hafa ýmsa jákvæða kosti.

Samþykktarkosning er notuð í kosningum ýmissa samtaka (t.d. hjá akademískum samtökum á borð við Mathematical Association of America (MAA), American Statistical Association (ASA) og Society for Social Choice and Welfare (WMS)).

Framkvæmd kosninga:

Hver kjósandi kýs þá frambjóðendur sem hann styður eða treystir, til dæmis með því að merkja við nöfn þeirra á atkvæðaseðlinum með krossi. Engin forgangsröðun á sér stað, þ.e. kjósandinn getur ekki tilgreint hvort hann styður þá frambjóðendur sem hann merkir við jafnt eða mismikið. Kjósandanum er hins vegar frjálst að kjósa eins marga eða eins fáa og honum sýnist. Sá frambjóðandi sem flest atkvæði hlýtur telst kjörinn. Kosningakerfið byggir því í raun á því að kjósandinn skipti frambjóðendum í tvo hópa:

  1. Þá sem kjósandinn styður eða telur ásættanlega eða hæfa í embættið
  2. Þá sem kjósandinn styður ekki eða telur ekki ekki ásættanlega eða hæfa í embættið.

Samþykktarkosning er venjulega notuð í kosningum þar sem er einungis einn sigurvegari (t.d. í forsetakosningum) en það má auðveldlega útfæra fyrir kosningar þar sem fylla þarf mörg sæti.

Dæmi:

Segjum að það séu fimm kjósendur og þrír frambjóðendur (A, B, og C). Forgangsröðun hvers kjósanda á frambjóðendunum er sýnd í töflunni að neðan.

Atkvæði hvers kjósanda er gefin til kynna með rauðu letri. Kjósandi 1 hefur gefið A og B atkvæði en kjósandi 2 hefur einungis greitt A atkvæði.

Fyrsta sæti Annað sætiÞriðja sæti
Kjósandi 1ABC
Kjósandi 2ABC
Kjósandi 3BAC
Kjósandi 4BAC
Kjósandi 5CAB

Frambjóðandi A fær fjögur atkvæði, frambjóðandi B fær þrjú og frambjóðandi C fær eitt. Frambjóðandi A telst því kjörinn.

Kostir og gallar:

Samþykktarkosning gefur kjósendum færi á að segja álit sitt á öllum frambjóðendum og talning atkvæða er einföld og auðskiljanleg.

Rannsóknir benda til þess að notkun samþykktarkosningar leiði til vals á þeim frambjóðanda sem mest eining ríkir um og er þannig hliðhollt frambjóðendum sem taka hógværa afstöðu, en gerir frambjóðendum sem höfða til minni hópa og sérhagsmuna erfiðara fyrir.

Samþykktarkosning hvetur kjósendur til þess að kynna sér stefnumál margra eða allra frambjóðanda, þar sem þeir geta stutt fleiri en einn frambjóðanda með atkvæði sínu.

Samþykktarkosning flækir stundum val kjósenda. Segjum sem svo að kjósandi telji tvo (A og B) af fjórum frambjóðendum hæfa eða ásættanlega í embætti, en álítur engu að síður frambjóðanda A mun betri en frambjóðanda B. Kjósandinn getur ekki forgangsraðað frambjóðendum og getur því ekki lýst þessari afstöðu sinni með atkvæði sínu. Ef kjósandinn velur bæði A og B eykur það líkurnar á því að annar þeirra frambjóðanda sem hann getur hugsað sér að styðja vinni kosningarnar, en dregur um leið úr líkunum á því að sá frambjóðandi sem hann telur betri vinni. Því gæti kjósandinn valið að kjósa einungis frambjóðanda A, þó hann styðji einnig frambjóðanda B.