Ísland

Á Íslandi er þjóðkjörinn forseti sem formlega séð skipar ríkisstjórn, en hún hlýtur umboð sitt ekki frá honum, heldur frá þinginu og því ríkir þingræði á Íslandi en ekki forsetaræði líkt og í Bandaríkjunum, þar sem ríkisstjórnin hlýtur umboð sitt frá forsetanum. Örlög ríkisstjórna ráðast því í aðalatriðum í alþingiskosningum en ekki í forsetakosningum. Forsetakosningar á Íslandi hafa verið persónubundnar fremur en flokkspólitískar og hafa stjórnmálaflokkarnir ekki tekið opinberlega afstöðu til forsetaframbjóðenda, ef undan eru skildar fyrstu almennu forsetakosningarnar, sem haldnar voru árið 1952.

Yfirleitt hefur verið litið svo á að forseti Íslands gegni fyrst og fremst táknrænu hlutverki í íslenskri stjórnskipan. Þrátt fyrir það hefur hann tvenns konar vald sem skipt getur máli í pólitísku samhengi. Annars vegar getur forseti hafnað því að staðfesta lög með undirskrift sinni, sem þýðir að fara þarf fram almenn þjóðaratkvæðagreiðsla um viðkomandi lög, þar sem meirihluti greiddra atkvæða nægir til þess að fella þau úr gildi. Hins vegar getur forsetinn haft viss áhrif við myndun ríkisstjórna ef ekki liggur fyrir hver vilji þingsins er í því efni. Hugsanlegt er jafnvel að forsetinn geti haft úrslitaáhrif á myndun ríkisstjórnar ef flokkar þingsins koma sér ekki saman um hana. Forseti beitti synjunarvaldinu í fyrsta skipti gagnvart lögum um fjölmiðla árið 2004 en enginn forseti hefur myndað utanþingstjórn, þó Sveinn Björnsson hafi gert það sem ríkisstjóri árið 1942.

Forseti Íslands er kosinn beinni kosningu með einföldum meirihluta í einni umferð. Einfaldur meirihluti þýðir að sá frambjóðandi sem fær flest atkvæði er kjörinn, óháð því hvort hann hefur fengið stuðning meirihluta kjósenda eða ekki. Kjósendur geta bara greitt einum frambjóðanda atkvæði sitt og fá ekki tækifæri til þess að forgangsraða (eins og á Írlandi) eða kjósa í fleiri umferðum (eins og í Frakklandi). Í forsetakosningum á Íslandi er þannig mögulegt að sigurvegari veljist sem nokkuð vantar á að hafi meirihluta kjósenda á bak við sig. Í forsetakosningunum árið 1980 var Vigdís Finnbogadóttir t.d. kosin forseti þótt hún fengi ekki nema 33,8% gildra atkvæða. Næstur kom Guðlaugur Þorvaldsson með 32,3% atkvæða en aðrir frambjóðendur fengu lægra hlutfall.

Niðurstöður forsetakosninganna 1980

FrambjóðandiAtkvæði%
Albert Guðmundsson25 59919,84
Guðlaugur Þorvaldsson       41 70032,.31
Pétur J. Thorsteinsson18 13914,06
Vigdís Finnbogadóttir43 61133,79
Samtals129 049100,00