Frakkland

Frakkland er lýðræðisríki með forsetaþingræði. Forseti Frakklands er þjóðhöfðingi ríkisins. Stjórnarskrá fimmta lýðveldisins, sem gekk í gildi 1958, kveður á um að forseti lýðveldisins skuli kosinn beinni kosningu þar sem kosningaréttur er almennur. Forsetinn skipar leiðtoga framkvæmdavaldsins, forsætisráðherrann (premier ministre), sem síðan myndar ríkisstjórn sem er ábyrg gagnvart löggjafarvaldinu.

Þjóðþingið (l’Assemblée Nationale) og öldungadeildin (le Senat) fara saman með löggjafarvaldið. Ef ágreiningur er á milli þjóðþingsins og öldungadeildarinnar hefur þjóðþingið lokaorðið. Þingmenn þjóðþingsins, 577 að tölu, eru kosnir beinni kosningu til fimm ára. Öldungadeildarþingmennirnir, 348 að tölu, eru ekki kosnir beinni kosningu.  Þeir eru kosnir af kjörmönnum (de grands électeurs) sem eru að mestu leyti kjörnir embættismenn af lægri stjórnstigum.

Þjóðþingið hefur vald til að fella ríkisstjórnir með vantrauststillögu. Fari svo fær forseti lýðveldisins tækifæri til þess að útnefna forsætisráðherra sem hefur stuðning meirihluta þingsins. Að öðru jöfnu leitar forsætisráðherraefnið eftir stuðningi þingmanna, eftir flokkslínum eða samsteypu flokka, til að tryggja sér meirihluta á þinginu. Forsetinn hefur vald til þess að rjúfa þing og boða til kosninga.  Það hefur gerst fimm sinnum síðan 1958. Algengast er að nýkjörnir forsetar leysi upp þingið í þeirri von að í kjölfar þingkosninganna standi þeir frammi fyrir þingi sem er þeim hliðhollara.

Kosningakerfið

Frönsk kosningkerfi byggja yfirleitt á hreinni meirihlutakosningu í tveimur umferðum. Forseti lýðveldisins er kosinn samkvæmt slíku kerfi. Hver kjósandi greiðir einum frambjóðanda atkvæði. Ef einhver frambjóðanda fær meira en helming atkvæða telst hann kjörinn. Ef enginn frambjóðendanna fær helming atkvæða er haldin önnur umferð, sem er einvígi á milli þeirra tveggja sem atkvæðahæstir voru í fyrri umferðinni. Fulltrúar þjóðþingsins eru kosnir með svipuðu kerfi.

Frönsk stjórnmál einkennast af miklum fjölda stjórnmálaflokka (sem iðulega skipta um nöfn, renna saman eða klofna) en á sama tíma einkennist kerfið að ákveðnum stöðugleika þar sem fremur auðvelt er að staðsetja flokkana á hægri-vinstri ás stjórnmálanna og þeim má skipta upp í fimm hópa: hógværa hægri og vinstri flokka, miðjuflokka og öfgaflokka til hægri og vinstri. Kosningakerfið skiptir sennilega miklu máli fyrir franska flokkakerfið.

Í fyrri umferð kosninganna er mögulegt að styðja frambjóðendur sem eiga litla möguleika á að hljóta kosningu. Það gefur smáflokkum tilvistargrundvöll, en hefur ekki áhrif á niðurstöður kosninga. Þær ákvarðast í flestum tilvikum í seinni umferðinni, þar sem valið stendur venjulega á milli frambjóðenda tveggja stærstu flokkanna.

Síðustu kosningar

Árið 1995: Jacques Chirac (20,84%) og Lionel Jospin (23,30%) komust í seinni umferðina úr hópi níu frambjóðenda.
Jacques Chirac hlaut kosningu í seinni umferðinni með 52.64% atkvæða.

Árið 2002: Jacques Chirac (19,88%) og Jean-Marie Le Pen (16,86%) komust í seinni umferðina úr hópi sextán frambjóðenda.
Jacques Chirac hlaut kosningu í seinni umferðinni með 82.21% atkvæða.

Árið 2007: Nicolas Sarkozy (31,18%) og Ségolène Royal (25,87%) komust í seinni umferðina úr hópi tólf frambjóðenda.
Nicolas Sarkozy hlaut kosningu í seinni umferðinni með 53.06% atkvæða.

Árið 2012: François Hollande (28,63%) og Nicolas Sarkozy (27,18%) komust í seinni umferðina úr hópi tíu frambjóðenda.
François Hollande hlaut kosningu í seinni umferðinni með 51.64% atkvæða.

Árið 2017: Emmanuel Macron (24.01%) og Marine Le Pen (21.30%) komust í seinni umferðina úr hópi tíu frambjóðenda.
Emmanuel Macron hlaut kosningu í seinni umferðinni með 66.10% atkvæða.

Árið 2022: Emmanuel Macron (27.85%) og Marine Le Pen (23.15%) komust í seinni umferðina úr hópi tólf frambjóðenda. Emmanuel Macron hlaut kosningu í seinni umferðinni með 58.55% atkvæða.